Múrinn-vefrit um þjóðmál, pólitík og menningu
Múrinn-vefrit um þjóðmál, pólitík og menningu
 

Hver er flottasti múmínálfurinn?

22.2.2002

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sá er þetta ritar er mikill áhugamaður um Múmínálfanna. Þessi staðreynd ætti ekki að koma neinum á óvart, enda hafa allir góðir menn gaman af Múmínálfunum og hefur undirritaður löngum verið talinn harlagóður maður.

Til að gæta fyllsta hlutleysis er þó rétt að taka fram að finna má allnokkra einstaklinga sem eru á öðru máli og telja ritstjórnarfulltrúann þvert á móti vera leiðindagaur og vitleysing. Það er vissulega sjónarmið. - Enn aðrir vilja ekki taka svo djúpt í árinni, en kvarta hins vegar undan þeirri áráttu greinarhöfundar að skrifa ætíð um sjálfan sig í þriðju persónu. Ekki getur hann (þ.e. ég) tekið undir þá gagnrýni, en mun þó að þessu sinni breyta út frá vananum og skrifa í fyrstu persónu.

En víkjum nú aftur sögunni að Múmínálfunum. - Oft spyr fólk mig þeirrar spurningar, hver sé eftirlætispersóna mín úr bókunum um Múmínálfana? Verður þá gjarnan fátt um svör, eða - það sem verra er, að ég svara fullkomlega út í hött eða ekki samviskunni samkvæmt. Þannig hef ég þóst vera sérstakur aðdáandi Míu litlu í hópi óðra femínista, Múmínsnáðans gagnvart ungum frændsystkinum en Hemúlsins við ýmis önnur tækifæri.

Raunveruleikinn er þó öllu margslungnari, enda má segja að það fari eftir því í hvernig skapi ég er hverju sinni hvaða persóna verður fyrir valinu. Til að færa lesandann skrefi nær svarinu við spurningunni, má þó setja saman lista yfir fimm eftirlætispersónurnar mínar. Þær eru þessar:

Í fimmta sæti: Múmínpabbi.

Múmínpabbi er í algjöru aukahlutverki í múmínálfabókunum, að einni undanskilinni - Eyjunni hans Múmínpabba (á sænsku "Pappan och havet"; á finnsku "Muumipappa ja meri"). Þar lendir karlinn í skæðri miðaldrakrísu, sem leiðir til þess að hann dregur fjölskylduna með sér út í nálæga eyju þar sem hann hyggst vinna mikil bókmenntaleg afrek. Öllum mátti ljóst vera að þessi ferð yrði ekki til fjár, en um síðir tekst Múmínpabba að komast í sátt við líf sitt og fjölskyldan getur snúið aftur heim í dalinn, sterkari en fyrr. - Þótt afar lítið sé birt úr ritverkum Múmínpabba í bókaflokknum, getur engum dulist að hann er fullkomlega hæfileikalaus rithöfundur, sem eykur einungis á dýpt persónunnar í sögunni.

Í fjórða sæti: Forfaðirinn.

Þegar Múmínsnáðinn fréttir það fyrst að hann eigi ævagamlan forföður á lífi, verður hann kátur mjög og telur sjálfsagt að vingast við þennan nýuppgötvaða ættingja. Síðar kemst hann að því sér til nokkurra vonbrigða að forfaðir þessi er algjör leiðindagaur eða a.m.k. mannafæla, sem hírist í skúmaskotum og vill ekki við nokkurn mann tala. Allar tilraunir til að komast í samband við forföðurinn reynast unnar fyrir gýg. Fyrir vikið gefur þessi persóna kannski ekki færi á miklum vangaveltum um hinstu rök tilverunnar, en hún hefur sterka útgeislun - því verður ekki neitað.

Í þriðja sæti: Morrinn.

Allir vita að Morinn er langflottasta persóna Múmínálfabókanna, sem er ástæðan fyrir því að ég get ekki sett hann ofar en í þriðja sætið á þessum lista. (Alvöru bókmenntatöffarar mega aldrei falla í þann fúla pytt að elta almenningsálitið í svona málum - það væri jafn hallærislegt að viðurkenna hér að að ég held mest upp á Morrann og ef t.d. listfræðingur myndi nefna Fjallamjólk sem bestu Kjarvalsmyndina eða bókmenntafræðingur segði Íslandsklukkuna bestu bók Laxness.)

Morrinn er kalinn á hjarta og allt sem hann snertir visnar og deyr. Hann leitar stöðugt að fegurðinni, en hún er honum forboðin og hann endar alltaf á að tortíma henni. Tilraunir Múmínsnáðans til að vingast við Morrann eru fallegar, en um leið dauðadæmdar. Persónur eins og Morrinn koma ekki fram í bókmenntum nema einu sinni á öld.

Í öðru sæti: Bísamrottan.

Bísamrottan er algjör skúnkur, eins og nafnið gefur til kynna. Hún er afæta, sem krefst þess að Múmínmamma haldi sér uppi á góðgæti meðan hún les hátimbruð heimspekirit. Eftirlætisbók hennar ber þann bölsýnislega titil: "Um tilgangsleysi allra hluta" og þangað sækir Bísamrottan réttlætinguna fyrir iðjuleysi sínu og almennri mannfyrirlitningu. Á frönsku heitir Bísamrottan - le Rat Musqué, sem er einfaldlega alltof kúl nafn.

Í fyrsta sæti: Snabbi.

Snabbi er hin fullkomna andhetja með flesta þá lesti sem lýtt geta nokkurn mann eða dýr. Hann er heigull, sjálfselskur, vælinn, montinn, lyginn og óþagmælskur. Öfugt við flestar hinar persónurnar þroskast hann ekkert eftir því sem líður á bókaflokkinn, né sýnir hann á sér nýjar og óvæntar hliðar. Tove Janson sér hins vegar aldrei ástæðu til að prédika yfir lesandanum eða veita Snabba makleg málagjöld. Þvert á móti er honum leyft að lifa sæll í þeirri trú sinni að eðalsteinar og gersemar tryggi lífshamingjuna. - Óreyndir Múmínálfalesendur gera sér oft ekki grein fyrir mikilvægi persónu Snabba í bókunum, en lengra komnir Múmínálfavinir eru undantekningalítið dyggir aðdáendur.

sp


Prenta grein   Senda grein   Tilvísunar slóðLeit   Eldra efni   Um Múrinn
Forsíða   Efst á síðu
Rss straumur