|
|
Hvað er netlögregla?
17.5.2007
Fyrr í vor varð mikið fjaðrafok vegna þess að ákveðinn stjórnmálamaður kaus að nota orðið „netlögregla“ yfir það að lögreglan hefði starfsfólk og umboð til að sporna gegn afbrotum sem framin eru á internetinu og með aðstoð þess. Í framhaldinu hafa ýmsir sérfróðir fagaðilar komið fram og lýst ástandinu sem nú er komið upp og bent á leiðir til úrbóta.
Fréttablaðið greindi fyrir skömmu frá því að frá áramótum hefur barnaklám fundist í tölvum fjórtán einstaklinga hér á landi. Lögregluyfirvöld lýsa yfir áhyggjum af þróuninni og yfirmaður kynferðisafbrotadeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir barnaklám vera að aukast hér á landi. Við það bætist að sérfræðingur hjá Barnahúsi upplýsti nýlega í fréttum Stöðvar 2 að á síðastliðnum 15 mánuðum var 21 mál kært til lögreglu þar sem barnaníðingar tældu til sín börn í gegnum netið. Að mati sérfræðingsins eru slík tilfelli miklu fleiri en kærurnar segja til um.
Forstöðumaður Barnaverndarstofu álítur að skapa þurfi lögreglunni bæði lagaleg og starfsleg skilyrði til þess að fylgjast með glæpastarfsemi á netinu og grípa til nauðsynlegra ráðstafana ef vart verður við að það sé verið að leita eftir sambandi við börn í annarlegum tilgangi. Þetta kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins í febrúar. Yfirmaður kynferðisafbrotadeildar lögreglunnar segir að aðferð Norðmanna, þar sem viðvörun frá lögreglunni birtist á skjánum ætli menn að fara inn á barnaklámsíður, hafi gefist vel þar í landi. Nú síðast á mánudag sagði Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn, í Fréttablaðinu að skerpa þurfi á lögum í tengslum við netnotkun hér á landi og að „netlögregla sem myndi hafa þann starfa að sía út efni sem klárlega varða við lög gæti verið nauðsynleg.“
Áróðursmeistarar Framsóknarflokksins kusu að tala um netlöggu í sjónvarpsauglýsingum þar sem teiknuð var upp skrípamynd af þekktum stjórnmálamanni með lögregluhatt. Ef þeir hinir sömu vilja gera grín að viðleitni fólks til að sporna gegn afbrotum á netinu þá mega þeir gera það mín vegna. En það er ekkert gamanmál að barnaníðingar og aðrir glæpamenn geti notað internetið óáreittir, án þess að lögreglan hafi sérþjálfað starfsfólk og skýrar heimildir til að sporna gegn því.
Eftir stendur spurningin: Hvernig vilja Framsóknarmenn taka á afbrotum sem framin eru í gegnum netið ef ekki með því að lögreglan hafi til þess sérhæft starfsfólk og skýran lagaramma? Á mönnum að vera frjálst að brjóta af sér svo fremi sem það er gert með aðstoð internetsins?
fd
|
|
| |