Múrinn-vefrit um þjóðmál, pólitík og menningu
Múrinn-vefrit um þjóðmál, pólitík og menningu
 

   Utanríkismál   

Glappaskot

22.5.2007

Fyrir tæpu ári síðan var David Cameron, þá tiltölulega nýkjörinn formaður breska Íhaldsflokksins, á ferð um Afríku. Eftir fund hans með Nelson Mandela, fyrrum forseta Suður-Afríku, lýsti Cameron því yfir að það hefði verið rangt af ríkisstjórn Margrétar Thatcher að standa við bakið á Apartheid-stjórn hvíta minnihlutans á níunda áratugnum og skilgreina Afríska þjóðarráðið og Mandela sem hryðjuverkamenn.

Ekki þurfti lengi að bíða viðbragða frá gömlum ráðherrum Thatcher-stjórnarinnar, sem sökuðu Cameron um kjánaskap. Þeir þrættu fyrir að stefnan í málefnum Suður-Afríku hefði verið röng, þvert á móti hefði hún verið hárrétt “miðað við fyrirliggjandi forsendur”. Þannig hefði afstaða ríkisstjórnarinnar verið hárrétt og skynsamleg – þótt hún hafi því miður leitt til rangrar niðurstöðu – en gagnrýnendur hennar hefðu verið á miklum villigötum (þótt þeir hefðu raunar rambað á rétta niðurstöðu fyrir tilviljun).

Þess utan - bentu hinir öldnu varðhundar Thatcher á - væri naflaskoðun af þessu tagi ekki til neins. Ekki væri hægt að breyta gömlum yfirlýsingum og varasamt að þyrla upp gömlu ryki. Þótti þetta nokkurt nýnæmi frá sömu mönnum og kröfðust þess um árabil að vinstrimenn gerðu hreint fyrir sínum dyrum vegna gamalla tengsla hreyfingar þeirra við kommúnista í Austur-Evrópu.

Vitaskuld lét David Cameron þessa gagnrýni sem vind um eyru þjóta. Margt bendir til að þor hans til að gagnrýna ýmis mistök Íhaldsflokksins í fortíðinni geri hann enn sigurstranglegri í komandi kosningum. Ekki hvað síst ef Verkamannaflokkurinn skirrist áfram við að viðurkenna nokkur mistök frá stjórnartíð sinni.

Cameron skilur líka að afsökunarbeiðni af þessu tagi hefur raunverulegan tilgang. Röng stefna bresku ríkisstjórnarinnar varð með beinum og óbeinum hætti til að framlengja líf einhvers ranglátasta stjórnarfars í heimi. Apartheid-stjórnin braut mannréttindi og skerti lífsgæði milljóna manna, fólks sem margt hvert er enn í fullu fjöri. Það á heimtingu á skýringum og afsökunarbeiðni.

Fyrir trúverðugleika Bretlands í alþjóðastjórnmálum skiptir líka máli að ráðamenn þess (og mögulegir framtíðarleiðtogar) sýni að þeir geti horfst í augu við mistök. Hvernig er unnt að treysta dómgreind þeirra manna um málefni dagsins í dag, sem eru of stoltir til að viðurkenna jafnvel augljósustu glappaskot fortíðarinnar? Hvað segir það um stjórnmálaflokk sem þráskallast við að kalla einn dáðasta leiðtoga samtímans hryðjuverkamann – bara vegna þess að Margrét Thatcher valdi honum þá einkunn fyrir aldarfjórðungi?

Því er sagan af David Cameron og Nelson Mandela rifjuð upp hér, að tveir stærstu stjórnmálaflokkar Íslands sitja nú og ljúka við myndun ríkisstjórnar. Fyrir kosningar lagði Samfylkingin ríka áherslu á að stuðningur íslenskra stjórnvalda við stríðið í Írak yrði afturkallaður eða því lýst yfir að um mistök hefði verið að ræða. Miðað við undirtektir sjálfstæðismanna er ekki ástæða til bjartsýni á að þetta nái fram að ganga.

Rök þeirra sem studdu innrásina í Írak eru keimlík málflutningi gömlu Thatcher-ráðherranna. Höfuðáhersla er lögð á orðaleppa á borð við þá að stuðningurinn hafi verið réttur “miðað forsendur á sínum tíma”. Í fyrsta lagi halda þessi rök ekki vatni ef hafðar eru í huga allar þær ríkisstjórnir sem höfðu sömu forsendur en snerust engu að síður gegn stríðinu. Í öðru lagi gætu röksemdir af þessu tagi í besta falli talist málsbætur fyrir þá sem stóðu að hinni röngu ákvörðun en hafa engin áhrif á réttmæti ákvörðunarinnar sjálfrar.

Önnur leið sjálfstæðismanna til að drepa umræðunni á dreif er sú að þræta fyrir að listi stuðningsþjóða Íraksstríðsins sé plagg sem unnt sé að endurskrifa í ljósi seinni tíma vitneskju – þannig megi líkja honum við gestabók í samkvæmi. Gestur sem fær bakþanka eftir að hafa tekið þátt í partýi sem endaði með ósköpum getur jú ekki máð nafn sitt úr gestabókinni og öðlast þannig syndaaflausn.

Gestabókar-samlíkingin þætti e.t.v. góð rökræðubrella í mælskukeppni framhaldsskólanna, en er haldlítil í alvöru stjórnmálum. Að sjálfsögðu gera gagnrýnendur Íraksstríðsins sér engar grillur um að unnt verði að hverfa aftur í tímann og breyta orðnum hlutum. Það er sömuleiðis meira en líklegt að Bandaríkjastjórn neiti að breyta gömlum fréttatilkynningum á heimasíðu sinni um dyggan stuðning dvergríkja við loftárásir á Bagdad.

En að sjálfsögðu koma aðrar leiðir til greina. Skýr og skorinorð yfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar um að stuðningsyfirlýsingin hafi verið mistök myndi duga flestum. Í kjölfarið mætti svo tilkynna um að ráðist yrði í rannsókn á tildrögum stuðningsyfirlýsingarinnar og að leitað yrði leiða til að tryggja að slíkar yfirlýsingar verði ekki gefnar í framtíðinni – í það minnsta ekki án samþykkis Alþingis að undangengnum umræðum.

Krafan um að ný ríkisstjórn geri upp við stríðsstuðning fyrri stjórnar er ekki karp um keisarans skegg. Hún er eitt brýnasta viðfangsefni stjórnmálanna – ekki hvað síst í ljósi þess að íslenskir ráðamenn þráast ennþá við að bjóða landið fram til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ef svo ótrúlega kynni að fara að Ísland álpaðist inn í ráðið, er ljóst að okkar biði fjöldi mála sem snerust um stríð og frið, þar sem reyndi ekki hvað síst á færni ráðamanna til að leggja mat á þær upplýsingar sem stórveldin bæru á borð. Á meðan ríkisstjórn Íslands neitar að láta kanna hvernig stóð á stærsta glappaskoti íslenskrar utanríkispólitíkur seinni ára, er engin von til að hún gæti leyst slík verkefni af hendi.

sp


Prenta grein   Senda grein   Tilvísunar slóð



Leit   Eldra efni   Um Múrinn
Forsíða   Efst á síðu
Rss straumur