|
|
Rökrétt ríkisstjórn
29.5.2007
Það er fastur og fyrirsjáanlegur liður í tengslum við hver ríkisstjórnarskipti þegar stjórnmálaflokkarnir byrja á svikabrigslunum hver í annars garð – stundum af vonbrigðum með að lenda utan stjórnar og stundum til að verja sig fyrir mögulegri gagnrýni á samstarfið. Vorið 2007 reyndist engin undantekning í þessu efni.
Framsóknarmenn báru sig aumlega undan svikum gamla samstarfsflokksins, sem reyndust þegar nánar var að gáð felast í nákvæmlega sömu vinnubrögðum og Alþýðuflokksmenn skömmuðu Framsókn og íhaldið fyrir eftir kosningarnar 1995. Forystusveitir Samfylkingar og Vinstri-Grænna skiptust svo á skömmum þar sem þær hreyktu sér jöfnum höndum af því að hafa séð í gegnum Framsóknarflokkinn sem liðónýtt stjórnmálaafl og sökuðu hina um að hafa ekki gefið þessum sama Framsóknarflokki tækifæri.
Karp af þessu tagi er alltaf leiðinlegt, en að þessu sinni einnig óvenju tilgangslaust. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var nefnilega eini rökrétti kosturinn eftir þessar kosningar.
Þessi niðurstaða byggir ekki á rassvasastjórnmálaskýringum um að þessi flokksformaðurinn þoli ekki hinn eða öfugt (þrátt fyrir allt eru íslenskir pólitíkusar ekki í gagnfræðaskóla.) Hér er meira að segja rétt að afhjúpa mikið leyndarmál, sem á eftir að koma sumum fréttaskýrendum og stjórnmálafræðingum mjög á óvart: Ríkisstjórnir eru hvorki myndaðar né slitnar upp úr þeim vegna þess að formenn eru dónalegir hver við annan í sjónvarpsþáttum (hér komum við aftur að þessu með gagnfræðaskólann) – hins vegar eru stjórnmálamenn stundum með skæting í sjónvarpsþáttum vegna þess að þeir vita að þeir þurfa ekkert saman að sælda.
Sú niðurstaða, að samstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sé eina rökrétta niðurstaða kosninganna 2007, byggist heldur ekki á augljósum sannindum um bága stöðu Framsóknarflokksins. Allir sem komið hafa nálægt flokkapólitík sjá að það er eitthvað mikið að hjá Framsókn. Þar var raunar minnsta vandamálið að formaðurinn sjálfur skuli hafa lent utan þings og ekkert þingsæti unnist í Reykjavík.
Framsóknarflokkurinn er stjórnmálahreyfing í afneitun. Þrátt fyrir langverstu útkomu flokksins í sögu sinni, bendir fátt til þess að þingmenn hans eða annað forystufólk fáist til að viðurkenna að nokkuð ami að. Þannig mátti helst skilja á Guðna Ágústssyni (sem virðist hafa orðið formaður þegar ákveðið var að ekki þyrfti að fara eftir lögum flokksins frekar en hentaði hverju sinni) eftir kosningarnar að Framsóknarmenn hefðu bara verið á helvíti góðu róli og stefnt á kosningasigur, þar til helvítin á DV gáfu út aukablað sem eyðilagði allt.
Framsókn er sjúki maðurinn í íslenskum stjórnmálum og mun væntanlega halda áfram að skemmta okkur óvildarfólki hans enn um sinn með færni sinni til sjálfblekkingar og sjálfseyðingar. Það er þó ekki meginástæðan fyrir að núverandi ríkisstjórn er jafnrökrétt og hér er haldið fram.
Ástæðan er mun einfaldari: vilji kjósenda.
Eftir nánast þráhyggjukenndan áhuga fjölmiðla á skoðanakönnunum í aðdraganda þessara kosninga, er furðulegt hversu litla athygli könnun Fréttablaðsins þann 16. maí sl. fékk. Þar var spurt um afstöðu fólks til þess hvaða stjórnarmynstur það vildi sjá. Athygli vekur að þorri kjósenda miðjuflokkanna tveggja, Framsóknar og Samfylkingar, vildu helst samstjórn með Sjálfstæðisflokknum – 80% Framsóknarmanna og 70% Samfylkingarfólks.
Af þessu sést að stuðningur við þriggja flokka stjórn Samfylkingar, Framsóknar og VG hefði verið óverulegur, þótt meirihluti Vinstri-Grænna hefði raunar viljað þennan kostinn. Lýðræðislegt umboð slíkrar stjórnar hefði verið afar veikt. Kjósendur tveggja þessara flokka kærðu sig einfaldlega ekki um slíka stjórn.
Fyrir fjórum eða átta árum síðan hefði niðurstaða af þessu tagi verið útilokuð – a.m.k. hvað varðar Samfylkinguna, sem þá skilgreindi sig fyrst og fremst sem höfuðandstæðing Sjálfstæðisflokksins. Samfylkingin fann sig aldrei í því hlutverki. Lykilfólk í flokknum og – það sem skiptir ekki síður máli – stór hluti kjósenda hennar gat ekki fellt sig við þá forsendu að íslenskir hægrimenn væru endilega lakari samstarfskostur en vinstrimenn.
Þær raddir heyrðust alla tíð innan Samfylkingarinnar að flokkurinn ætti að taka sér stöðu á miðju stjórnmálanna og vinna þar jöfnum höndum til hægri og vinstri. Þannig yrði Samfylkingin nánast óhjákvæmilegur kostur – eins konar Framsóknarflokkur 21. aldarinnar. Tvennt spillti fyrir þessari draumsýn: annars vegar draumórarnir um "turnana tvo” í íslenskum stjórnmálum, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk, en hins vegar sú staðreynd að Framsóknarflokkurinn var fyrir á fleti.
Íslenska flokkakerfið er í örri umbreytingu um þessar mundir. Þær breytingar gerast hins vegar ekki með þeim hætti að flokkar séu sameinaðir og nýir stofnaðir – eins og ýmsir töldu vænlegast til árangurs fyrir um áratug síðan. Breytingarnar eiga sér stað með þeim hætti að þeir flokkar sem fyrir eru umskapa sjálfa sig. Samfylkingin tekur stöðu Framsóknarflokksins, sem aftur étur sjálfan sig upp innanfrá.
Nú er sú staða komin upp í íslenskum stjórnmálum að einungis einn flokkur hefur það að meginmarkmiði að losna við Sjálfstæðisflokkinn úr Stjórnarráðinu. Næstu þingkosningar munu líklega að miklu leyti snúast um hvort tuttugu ára stjórnarseta íhaldsins sé ekki yfirdrifið nóg. En miðað við stöðuna nú verður Sjálfstæðisflokknum ekki gefið frí nema Vinstri-Græn nái a.m.k. 20-23% atkvæða. Að öðrum kosti verður samstjórn íhaldsins og annars hvors Framsóknarflokksins jafn rökrétt árið 2011 og hún er í dag.
sp
|
|
| |